Innlent

Blása á allt krepputal í Stafdal

Unnið að uppsetningu lyftunnar
Unnið að uppsetningu lyftunnar Mynd/Skíðafélagið í Stafdal
„Þegar menn gera svona með tvær hendur tómar og enga peninga þá tekur þetta tíma," segir Agnar Sverrisson rekstrarstjóri skíðasvæðisins í Stafdal á Austfjörðum.

Ný skíðalyfta var tekin í notkun í Stafdal en um gamla lyftu er að ræða sem skíðaáhugafólk á Seyðisfirði flutti úr norðurbrún Fjarðarheiðar yfir í Stafdal.

„Að þessu stendur stórhuga fólk sem blæs á allt krepputal," segir Agnar en uppsetning lyftunnar hófst fyrir þremur árum. Verkið hefur að langmestu leyti verið unnið í sjálfboðavinnu félagsmanna í Skíðafélaginu í Stafdal og velunnara með dyggri aðstoð fyrirtækja á svæðinu.

Mynd/Skíðafélagið í Stafdal
„Við þessa viðbót stækkar skíðasvæðið mikið og möguleikarnir á brautum og ótroðnu svæði nánast endalausir. Stafdalur verður eftir breytinguna paradís þeira sem vilja renna sér utan troðinna leiða hvort sem er á bretti eða skíðum," segir Agnar.

Heildarlyftulengd er nú orðin yfir 1800 metrar, fjallhæðin er 350 metrar og troðnar brautir geta orðið allt að 10 km að sögn Agnars. Um tíu mínútur tekur að aka í Stafdal frá Seyðisfirði og um stundarfjórðung frá Egilsstöðum. Skíðasvæðið er annað tveggja á Austfjörðum en hitt er í Oddskarði.

Mynd/Skíðafélagið í Stafdal


„Í fjallinu er rífandi stemmning, fullt af fólki og flott veður," sagði Agnar í spjalli við fréttastofu í dag. Opið er í fjallinu til klukkan 16.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×