Innlent

Flugvöllurinn í Keflavík 70 ára

George H. Bonesteel, hershöfðingi og yfirmaður Bandaríkjahers á Íslandi, opnaði Meeks Field formlega við hátíðlega athöfn 24. mars 1943. Viðstaddir athöfnina voru æðstu yfirmenn hers og flota ásamt sendiherra Bandaríkjanna og yfirmönnum breska flughersins.
George H. Bonesteel, hershöfðingi og yfirmaður Bandaríkjahers á Íslandi, opnaði Meeks Field formlega við hátíðlega athöfn 24. mars 1943. Viðstaddir athöfnina voru æðstu yfirmenn hers og flota ásamt sendiherra Bandaríkjanna og yfirmönnum breska flughersins. Mynd/Isavia
Í dag eru liðin sjötíu ár frá því að Keflavíkurflugvöllur var formlega opnaður. Flugvöllurinn var gerður af Bandaríkjaher og gegndi mikilvægu hlutverki í síðari heimsstyrjöldinni.

Völlurinn varð eign Íslendinga að styrjöldinni lokinni og þjónaði sívaxandi flugumferð á flugleiðinni yfir Norður-Atlantshaf sem hófst á styrjaldarárunum. Bandaríkjamenn stóðu straum af kostnaði við rekstur flugvallarins um áratugaskeið og hann var aðalbækistöð bandaríska varnarliðsins á árunum 1951-2006.

Íslendingar hófu ekki að nota flugvöllinn í eigin flugrekstri fyrr en á öndverðum sjöunda áratug síðustu aldar en þar stendur nú mjög blómlegur flugrekstur og miðstöð alþjóðaflugs milli Evrópu og Ameríku.

Nánar er fjallað um afmælið á heimasíðu Isavia þar sem er að finna fjölmargar skemmtilegar myndir frá því þegar völlurinn var byggður.

Ítarlega umfjöllun um tilurð og upphafsár Keflavíkurflugvallar er að finna í bókinni Frá heimsstyrjöld til herverndar - Keflavíkurstöðin 1942-1951 eftir Friðþór Eydal. Höfundurinn vinnur nú að ritun sögu varnarliðsins og Keflavíkurflugvallar á árum kaldastríðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×