Innlent

Botnfrosin staða á Alþingi

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ekkert samkomulag er í sjónmáli í viðræðum formanna stjórnmálaflokkanna á Alþingi. Formaður Samfylkingarinnar segir að allt sé botnfrosið.

Þingfundi var ítrekað frestað í dag á meðan þingmenn ræddu stöðu mála. Formenn flokkanna funduðu einnig formlega í morgun en viðræður skiluðu ekki árangri.

„Þetta er bara botnfrosin staða, íslensk stjórnmál eru bara í þessari botnfrosnu stöðu og það er erfitt að komast út úr henni," segir Árni Páll Árnason.

Árni segir að stjórnarandstaðan sýni engan samningsvilja.

„Við höfum verið að setja fram tilboð, aftur og aftur og aftur, undanfarnar tvær vikur til að fá lausn í þessi mál, og við erum ekki að fá mikil viðbrögð frá stjórnarandstöðu flokkunum tveimur. Það er nú bara þannig. Nú er það þannig að Framsóknarflokkurinn er sýnu verri viðskiptis og virðist ekki hafa mikinn áhuga á því að efna fyrirheit um stjórnarskrárumbætur sem flokkurinn hefur gefið þannig að við erum í mjög skrýtinni stöðu," bætir Árni Páll við.

Bjarni Benediktsson, formaður sjálfstæðisflokks, segir að málið strandi á stjórnarskrárfrumvarpinu.

„Við höfum á þessum formannafundum lagt til leiðir út úr þessari stöðu, en mér sýnist að stjórnarflokkarnir vilji halda fast við sinn keip og opna fyrir auðveldari breytingar á stjórnarskránni, og við höfum ekki verið hlynnt því," segir Bjarni.

Ekki sé hægt að kenna stjórnarandstöðunni um stöðu mála.

„Það hefur verið heilmikið og margt rætt á þessum fundum undanfarna daga en það hefur afskapalega lítið miðað. Svo er auðvitað fullt af öðrum málum sem er verið að ræða, og af því sem ég er að heyra utanfrá mér, þá finnst mér í sumum þeirra skorta á samstöðu hjá stjórnarflokkunum sjálfum," segir Bjarni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×