Innlent

Segir kynþáttafordóma hafa aukist á Íslandi

Salmann Tamimi, varaformaður félags múslima á Íslandi, segir kynþáttafordóma hafa aukist mikið á Íslandi. Hann átti í orðaskiptum við starfsmann Matfugls í gær, sem Salmann segir ekki vilja þjóna múslimum.

Salmann var að fá sér falafel á veitingastaðnum Habibi í Hafnarstræti þegar starfsmaður Matfugls kom með sendingu. Starfsstúlka Habibi var slösuð og gat því ekki tekið við vörunum í gegnum lúgu.

„Ég bað hann vinsamlega að fara með þetta inn. Hann sagðist ekki mega vera að því. Þá sagði ég honum að stúlkan væri slösuð og þá sagði hann að best væri að loka þá bara staðnum."

Salmann segir manninn hafa sagst oft hafa heyrt í honum tala í fjölmiðlum um byggingu mosku, og að Íslendingar vilji ekki fá mosku til landsins. Hér eigi allir að vera kristnir.

„Ég sagði honum þá að þetta væri ekki kristileg framkoma. Ég ætti að vita það því ég þekki Krist, enda frá Jerúsalem, sama stað og hann er."

Salmann kveðst finna fyrir auknum fordómum hér á landi.

„Ég er alltaf að fá tölvupóst og sms um að múslimar eigi ekki að vera á Íslandi og að Íslendingar vilji ekki fá mosku hingað og svo framvegis."

Sveinn Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls, hefur rætt við starfsmanninn og segir framkomu sem þessa ekki í samræmi við starfsmannastefnu fyrirtækisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×