Innlent

Braust inn í apótek

Brotist var inn í apótek í Salahverfinu á öðrum tímanum í nótt. Innbrotsþjófurinn var á bak og burt þegar lögregla og öryggisverðir komu á staðinn. Einhverju af lyfjum hafði verið stolið en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu liggur ekki fyrir hvaða lyfjum var stolið eða hversu mikið.

Skömmu seinna barst lögreglu tilkynning um ungan mann sem lét ófriðlega við hótel í austurborginni. Maðurinn hafði brotið stóra rúðu í anddyri hótelsins og sparkað ítrekað í bíl sem var fyrir utan hótelið. Mun maðurinn hafa valdið miklu tjóni. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöðina. Í fórum hans fundust fíkniefni og gistir hann nú fangageymslu.

Um klukkustund síðar eða laust eftir klukkan þrjú var tæplega fimmtugur karlmaður handtekinn á Miklubraut eftir að hann hafði ekið bíl sínum aftan á aðra bifreið. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var maðurinn í afar annarlegu ástandi og kvaðst hann hafa sofnað undir stýri, enda hefði hann nýlega reykt kannabis. Hann var sviptur ökuréttindum og gisti fangageymslu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×