Innlent

"Það var alls ekki meiningin að svindla"

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Fimmtán ára gömlum vinkonum úr Breiðholtinu var stórlega misboðið þegar vagnstjóri hjá Strætó vísaði þeim á dyr, síðla kvölds í gær. Harðort bréf frá þeim til Strætó hefur síðan valdið miklu fjaðrafoki á veraldarvefnum.

Vinkonurnar og Breiðhyltingarnir Sylvía og Laufey voru á leið heim upp í Dúfnahóla frá Skeifunni á tólfta tímanum í gærkvöldi. Það kom hins vegar babb í bátinn á heimleiðinni þegar vagnstjórinn neitaði að taka við miða Laufeyjar, enda var hann nokkuð sjúskaður eftir veruna í veskinu.

Sylvía stökk þá til og rétti henni miða frá sér. Það tók vagnstjórinn ekki í mál. Stöllurnar halda því fram að bílstjórinn hafi sakað þær um að svindl og í kjölfarið hent þeim út. Laufey segist alls ekki hafa verið að reyna að svindla.

„Alls ekki ég hafði ekki hugmynd um þetta. Það var alls ekki meining að svindla. Hann ásakaði mig strax um að hafa verið að svindla og að Sylvía hefði verið með hinn helminginn."

„Við vorum bara að reyna komast heim til okkar frá öðrum stað. Þetta var svolítið dónalegt af honum. Við vorum greinilega búnar að borga fyrir miðana. Við fengum ekkert miðana til baka og það var heppni að við vorum með aðra miða til að komast heim," segir Sylvía.

Sylvíu var misboðið og ritaði í kjölfarið harðort bréf á fésbókarsíður Strætó bs. Pistillinn fór á flug og netverjar lýstu margir yfir undrun sinni á þessu sérstaka máli. Á endanum ákvað Strætó að eyða færslu Sylvíu.

„Það eru ótrúlega margir almennilegir strætóbílstjórar. Sem leggja sig fram við að bjóða góðan daginn, hafðu góðan dag og svoleiðis. Hann sýndi okkur aldrei kurteisi og leyfði okkur aldrei að tala"

Í samtali við fréttastofu í dag sagði Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs. að málið sé nú til skoðunar og að næstu skref verði ákveðin eftir páska.

Þær Sylvía og Laufey er þó ekki búnar að gefast upp á Strætó enda samþykktu þær að taka leið þrjú niður í Skeifu og ræða við fréttastofu. Þær fengu engu að síður far aftur upp í Dúfnahóla.

Bréfið frá Sylvíu sem Strætó tók úr birtingu á síðu sinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×