Skoðun

Ég kýs Stefán Einar

Fríður Birna Stefánsdóttir skrifar
Eins lengi og ég man hef ég verið upptekin af jafnrétti kynjanna. 12-13 ára fórum við bekkjarsystur oftar en einu sinni í „verkfall" í handavinnu, fórum til skólastjórans og kröfðumst þess að fá að læra smíðar eins og strákarnir. Við töpuðum þeirri baráttu. Ég var nýorðin 15 ára á Kvennafrídaginn, það kvöld grét ég því mamma „sveik" málstaðinn og eldaði kvöldmat. Nýgift með frumburðinn okkar vorum við hjónin sammála um að hann yrði heimavinnandi eftir lögbundið 3ja mánaða fæðingarorlofið mitt, þetta var fjárhagsleg ákvörðun. Hann fór í útvarpsviðtal því þetta var svo sérstakt. Við ólum börnin okkar upp þannig að þau gætu orðið hvað sem þau vildu, sem hefur síðan orðið raunin.

Ég hef séð miklar breytingar. Ég átti móður sem hljóp heim úr vinnunni í hádeginu til að elda fyrir pabba. Börnin mín tvö, sem eru rúmlega þrítug, skilja ekki af hverju hún gerði það. Mér finnst það gott.

Ég fagnaði þegar kona varð forseti Hæstaréttar, ég fagnaði þegar kona varð forseti Alþingis, ég fagnaði þegar kona varð forseti, ég fagnaði þegar kona varð borgarstjóri og ég fagnaði þegar kona varð forsætisráðherra. Ég fagnaði vegna þess að nú er það ekki lengur umræðuefni hvort það er kona eða karl sem sest í stólinn. Ekki tók ég eftir því að sérstaklega væri rætt um kyn þegar fyrsta konan varð fjármálaráðherra. Ég tel okkur komin á þann stað að við veljum ekki samkvæmt kyni. Ég vona það.

Ég hef verið samfellt á vinnumarkaði í 35 ár, um 30 ár í VR og ég hef séð miklar breytingar á þeim tíma. Ég hef séð verkföll, 130% verðbólgu, þjóðarsátt og hrun. Ég hef unnið með fólki sem finnst sjálfsagt að konur séu á lægri launum. Ég hef séð það breytast í spurninguna, af hverju eru konur með lægri laun? Ég hef séð lög og reglugerðir sett um jöfn laun kynjanna, viljayfirlýsingar í kjarasamningum og í pólitískum kosningum. Ég hef séð konur verða forstjórar, framkvæmdastjórar, markaðsstjórar og fjármálastjórar. Eitt hefur ekkert breyst svo lengi sem ég man, konur eru með lægri laun en karlar. Hvað er svona flókið?

Ég er lengi búin að bíða eftir að sjá launamun mældan, samkvæmt staðreyndum. Að sjá jafnlaunastaðal verða að raunveruleika er því ólýsanlega mikið gleðiefni að mínu mati. Félagið mitt, VR, steig strax fram og vinnur að krafti að því að hvetja og styðja fyrirtæki til að fara í innri úttekt og breytingar skv. nýjum jafnlaunastaðli.

VR mun veita fyrirtækjum sem það gera og sýna fram á að hjá þeim sé ekki kynbundinn launamunur leyfi til að nota merki Jafnlaunavottunar VR. Við munum á næstu mánuðum sjá fyrirtæki vinna sér inn þessa viðurkenningu. Það er mín einlæga von og trú að sem allra flest fyrirtæki geti það og það sem allra fyrst.

Jafnlaunavottun VR er bara eitt af þeim mörgu mikilvægu málum sem stjórn og starfsmenn VR hafa unnið að undanfarið. Ég hef setið í 15 manna stjórn VR í eitt ár. Mörg mál hafa komið þar inn á borð sem hafa verið rædd og afgreidd, sum vandasöm, sum einföld, sum ánægjuleg og önnur ekki. Stjórnina skipar gott fólk sem vill félaginu sínu vel.

Í starfi mínu fyrir VR hef ég séð Stefán Einar Stefánsson, formann VR, vinna ötullega og af mikilli einlægni fyrir félagsmenn VR. Hann er duglegur, fylginn sér og með skýr markmið um að efla hag félagsmanna. vinnandi sem og atvinnuleitendur. Nú þegar aðeins nokkrir mánuðir eru í kjarasamninga vil ég fá formann sem ég veit að er annt um VR og mun berjast af krafti fyrir bættum kjörum okkar VR-inga.

Stefán Einar er ungur maður fullur eldmóðs að gera VR að öflugu nútímalegu og sterku verkalýðsfélagi. Stefán Einar er af kynslóðinni sem finnst jafnrétti kynjanna sjálfsagt. Þess vegna kýs ég Stefán Einar.




Skoðun

Sjá meira


×