Innlent

Vonast eftir því að samningar við Kína klárist í næsta mánuði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Það liggja fyrir samningsdrög og það var verið að gera grein fyrir þeim og stöðu vinnunnar. Það er vonast til þess að hægt verði að ganga frá málinu í apríl," segir Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Viðræður Íslendinga og Kínverja um fríverslunarsamning þjóðanna hafa staðið yfir með hléum frá árinu 2007. Utanríkismálanefnd boðaði gesti úr utanríkis- og fjármálaráðuneytinu til fundar í morgun.

„Það hafa verið samningalotur bæði hér og í Kína um langt skeið," segir Árni Þór en loks sé farið að sjá fyrir endann á viðræðunum. Aðspurður hvort einhver sérstök vandamál séu væntanleg í viðræðunum þjóðanna á síðustu metrunum segir formaðurinn:

„Menn hafa auðvitað rætt samskipti á sviði mannréttindamála, eðlilega, og það er það sem má segja að hafi helst vafist fyrir mönnum. Hvernig eigi að koma þeim fyrir," segir Árni Þór.

Hann bendir á að í fríverslunarsamningum sem þessum sé algengt að fjallað sé um mannréttindamál.

„Við höfum verið að reyna að finna leiðir til þess að leysa þau og ég held að það sé í þokkalegum farvegi," segir Árni Þór.

Íslendingar flytja helst makríl, grálúðu og karfa til Kína. Með fríverslunarsamningi má vænta þess að tollar á útflutningi þess varnings og annars yrðu felldir niður. Sömu sögu er að segja um iðnaðarvörur og fatnað sem töluvert er flutt af til Íslands frá Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×