Innlent

Dagaspursmál hvenær Herjólfur siglir til Landeyja

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Stefán
Á heimasíðu Herjólfs kemur fram að nú sé spurning um daga frekar en vikur hvenær skiptið hefji siglingar á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja.

Herjólfur hefur siglt á milli Eyja og Þorlákshafnar síðan í byrjun nóvember. Farnar eru tvær ferðir á dag. Á heimasíðu Herjólfs segir að unnið sé að dýpkun í Landeyjahöfn sé ekki orðin næg fyrir skipið. Dýpkun hafi ekki gengið jafnvel og vonir stóðu til.

Gunnlaugur Kristjánsson hjá Björgun hf. sem gerir út dýpkunarskipin Sóley, Perlu og Dísu sem sjá um dýpkun í Landeyjahöfn er ósammála því að dýpkun hafi gengið illa. Búið sé að dæla um 95 þúsund rúmmetrum á sex dögum í höfninni. Til samanburðar hafi sumarið 2010 verið áætlað að þrjá mánuði tæki að dæla 180 þúsund rúmmetrum.

„Allt tal um að það (innsk: dýpkun) gangi illa eru því út í hött. Þvert á móti hefur dýpkun gengið mjög vel. Það er hinsvegar ljóst að magnið sem áætlað var að fjarlægja þyrfti nú til að opna höfnina hefur verið verulega vanmetið," segir Gunnlaugur í samtali við Eyjafréttir.

Starfsmaður Herjólfs staðfesti í samtali við Vísi að dýpi yrði mælt á ný í dag eða í kvöld. Því ættu nánari upplýsingar að liggja fyrir á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×