Innlent

Engar reglur um ber hér á landi

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Dóra segir ekki sérstaka ástæðu til þess að vara við ferskum berjum, lifrarbólgutilfellin í Danmörku megi einungis rekja til frosinna berja.
Dóra segir ekki sérstaka ástæðu til þess að vara við ferskum berjum, lifrarbólgutilfellin í Danmörku megi einungis rekja til frosinna berja. Mynd/Getty
„Málið er enn í rannsókn í Danmörku en þeir hafa enn ekki getað einangrað þetta við einhverja tegund," segir Dóra S. Gunnarsdóttir fagsviðsstjóri um matvælaöryggi og neytendamál hjá Matvælastofnun, en greint var frá því fyrir helgi að upp hefðu komið þrjátíu tilfelli af lifrarbólgu A í Danmörku sem rakin eru til neyslu á frosnum berjum.

„Ef við fáum upplýsingar um hvaða tegund þetta er þá fer það í gegn um viðvörunarkerfi Evrópusambandsins og þá fáum við viðvörun um það hingað og varan tekin af markaði í kjölfarið."

En er vitað til þess að einhver hafi smitast hér á landi?

„Nei. Það var allavega ekki tilefni þess að við sendum frá okkur tilkynninguna," segir Dóra og bætir því við að litlu máli skiptir þó berin komi ekki frá Danmörku.

„Við erum að fá mikið af berjum sem eru líka á markaði þar, en þau eru ábyggilega ekki ræktuð í Danmörku. Þau eru annars staðar frá og þetta hefur áður verið vandamál. Sérstaklega nóróveirusýkingar í hindberjum. Þess vegna hafa Danir breytt sínum reglum og benda neytendum á að sjóða hindber. Það verður að nota soðin ber, hindber sem önnur, í stóreldhúsum, mötuneytum og þar sem er verið að framleiða mat fyrir viðkvæma aldurshópa."

Dóra segir engar reglur hér á landi um að nota verði soðin ber.

„Við höfum bent neytendum á þetta. Það er nóg að skella þeim í sjóðandi vatn í eina mínútu til þess að drepa allt. Það skemmist í sjálfu sér ekkert bragð þó einhver vítamín tapist."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×