Innlent

„Þörfin er til þó hið opinbera hafi ekki viðurkennt hana“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Stórleikarinn Denzel Washington þykir standa sig vel í Flight. Á innfelldu myndinni er Gunnar Smári Egilsson, formaður SÁÁ.
Stórleikarinn Denzel Washington þykir standa sig vel í Flight. Á innfelldu myndinni er Gunnar Smári Egilsson, formaður SÁÁ.
Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ) standa að kvikmyndasýningu klukkan 21:30 í kvöld.

Rennur allur aðgangseyrir til Barnahjálpar SÁÁ, en stefnt er á að sýna kvikmyndir sem fjalla á einhvern hátt um alkóhólisma í húsakynnum samtakanna á hverju mánudagskvöldi fram á vorið.

Sýningin í kvöld verður þó í Sambíóunum, Egilshöll og verður nýjasta kvikmynd stórleikarans Denzel Washington, Flight, á dagskrá.

„Barnahjálpin ætlar að styðja við starf hér hjá SÁÁ til þess að hjálpa börnum alkóhólista," segir Gunnar Smári Egilson, formaður samtakanna. „Það starf hefur verið hér í fimm ár, en með því að stofna Barnahjálpina erum við að búa til tæki þannig að við getum fjármagnað hana. Við fáum örlítinn styrk frá Reykjavíkurborg og Lýðheilsusjóði í starfsemina en samtökin sjálf borga um 25 milljónir á ári til að halda henni úti."

Gunnar segir mikla þörf á þjónustunni, sem byggir upp á sálfræðiviðtölum við börn alkóhólista á aldrinum átta til átján ára.

„Við erum með þrjá sálfræðinga að störfum hér og mikið að gera. Þjónustan stendur öllum börnum alkóhólista til boða og nú leitum við til almennings um að hjálpa okkur að halda úti þessari starfsemi."

Gunnar segir myndina draga upp raunsæja mynd af alkóhólisma.
Reynt að vekja athygli stjórnvalda

Gunnar segir börn alkóhólista „mörg hver búa við mikið álag sem hafi áhrif á heilsu þeirra og auki líkurnar á því að þau þrói með sér áfengis- og vímuefnasýki og aðrar geðraskanir".

„Norðmenn hafa til dæmis sett lög sem viðurkenna skyldu hins opinbera til þess að veita börnum úrræði sem búa við mikið álag vegna veikinda foreldra sinna, þar með talið áfengis og vímuefnasýki," en Gunnar segir samtökin hafa reynt að vekja athygli stjórnvalda á þörfinni fyrir að setja sambærileg lög hér á landi.

„Þörfin er til þó hið opinbera hafi ekki viðurkennt hana og það er það sem við erum að reyna að uppfylla."

Kvikmyndin Flight segir frá flugmanni, langt leiddum af alkóhólisma, sem kemst í hann krappan þegar upp kemst að hann var undir áhrifum þegar flugvél brotlenti undir hans stjórn. Gunnar segir myndina draga upp raunsæja mynd af sjúkdómnum.

„Já ég sá myndina. Mikill alkóhólisti sem hún fjallar um. Það eru auðvitað ekki allir alkóhólistar eins, en myndin er áhrifamikil og hann (Denzel Washington) leikur ótrúlega vel."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×