Innlent

Tekjur lægstar á Íslandi

Ólafur Darri Andrason, deildarstjóri hagdeildar ASÍ, kynnti niðurstöðurnar í dag.
Ólafur Darri Andrason, deildarstjóri hagdeildar ASÍ, kynnti niðurstöðurnar í dag.
Tekjur eftir skatt eru í öllum tilfellum lægri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum eftir að tekið hefur verið tillit til verðlags. Þetta er þrátt fyrir lægri skattbyrði.

Alþýðusamband Íslands kynnti í dag nýja skýrslu um lífskjör á Norðurlöndum. Í skýrslunni er Ísland borið saman við Danmörku, Noreg og Svíþjóð og kennir ýmissa grasa. Niðurstöðurnar miða við tölur frá árinu 2011 en sambærilegar tölur eru til frá árinu 2006.

Ísland hefur heltst úr lestinni á mörgum sviðum frá 2006 hvað lífskjör varðar. Íslendingar vinna að jafnaði lengri vinnuviku til að halda uppi lífskjörum sambærilegum við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Lífskjaramunurinn er því enn meira að teknu tilliti til vinnutíma.

Samdráttur í fjárfestingu frá hruni er sagður mikið áhyggjuefni og enn undir sögulegu meðaltali. Skuldsetning hins opinbera er ein stærsta ógnin við lífskjör Íslendinga en samdráttur samneyslu hefur komið hart niður á heilbrigðis- og menntakerfinu.

Af Norðurlöndunum er skattbyrði lágtekna lægst á Íslandi og skattbyrði meðaltekna sambærileg við Noreg en hærri en í Svíþjóð. Skattbyrði hátekna er hins vegar lægri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum.

Þá segir að breytingar á skattkerfinu hafi orðið til þess að hlífa þeim tekjulægstu. Staða einstæðra foreldra er sögð gjörbreytt en staða hjóna og sambýlisfólks með börn hins vegar versnað miðað frá 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×