Innlent

Skotið á hús á Eyrarbakka

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Mynd úr safni.
Fjórir voru handteknir eftir að skoti var hleypt á íbúðarhús á Eyrarbakka í nótt. Lögreglan á Selfossi lagði hönd á haglabyssu sem fjórmenningarnir, þrír karlar og ein kona, höfðu í fórum sínum. Sérsveitarlögreglumenn voru kallaðir til eftir að skotinu var hleypt af, en högl lentu á vegg við eldhúsglugga þar sem ungur maður stóð fyrir innan. Mesta mildi þótti að ekki hefði farið verr. Fjórmenningarnir dvelja í fangageymslu lögreglunnar á Selfossi og bíða yfirheyrslu, en það er tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem sér um tæknirannsókn. Atvikið er litið alvarlegum augum og rannsókn verður framhaldið í dag. Síðar í dag verður síðan metið hvort þörf er á að úrskurða einn eða fleiri í gæsluvarðhald. Lögreglan á Selfossi biðlar til allra þeirra sem veitt geta upplýsingar um ferðir svörtu Volkswagen Golf bifreiðarinnar á Eyrarbakka á milli klukkan 04:20 og 04:40 eða heyrðu skothvell að hafa samband í síma 480-1010. Mjög áríðandi er að fá slíkar upplýsingar. Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvað lá að baki skotárásarinnar og ekki hægt að upplýsa um stöðu rannsóknarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×