Uppsagnir 254 hjúkrunarfræðinga eru yfirvofandi um næstu mánaðarmót takist ekki samningar milli fulltrúa Landspítalans og félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
„Ég er reyndar fullviss um það að stjórnendur spítalans og félag íslenskra hjúkrunarfræðinga muni leggja sig fram um að ná samningum. Allir vita hvaða afleiðingar það getur haft ef hjúkrunarfræðingarnir hætta og leita á önnur mið ," segir Geir.
91% hjúkrunarfræðinga höfnuðu nýjasta tilboði Landspítalans sem kynnt var á fundi í gærkvöldi. Fulltrúar félags hjúkrunarfræðinga funduðu með fulltrúum Landspítalans í dag en engin niðurstaða náðist á fundinum.

„Spítalinn mun standa frammi fyrir því að fara í gagngera endurskoðun á starfsemi sinni. Það er mjög erfitt mál að leysa því góð heilbrigðisþjónusta er samhent átak margra einstaklinga með mismunandi fagþekkingu og reynslu og það leggur meðal annars grunn að okkar góðu heilbrigðisþjónustu," segir landlæknir sem sem vonast eftir niðurstöðu í málið áður en uppsagnirnar taka gildi 1. mars.
„Ég vona svo sannarlega að það náist niðurstaða. Það er erfitt að gefa sér hvað muni gerast í framhaldinu ef svo margir hjúkrunarfræðingar hverfa á braut. Það er annað verkefni sem menn yrðu að skoða. En ég vona svo sannarlega að til þess komi ekki."
Hann minnir á að embætti landlæknis sé eftirlitsaðili með heilbrigðisþjónustunni og því sé það ekki hans að svara því til hvaða aðgerða þyrfti að grípa til á Landspítalanum verði uppsagnirnar að veruleika.
„Það er verkefni stjórnenda spítalans að skipuleggja þjónustuna og undirbúa viðbragðsáætlanir í því tilviki að samningar takist ekki. En ég hef áhyggjur af þessu og fylgist með framvindu deilunnar," segir landlæknir.