Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segist ekki ætla að gera breytingar á ríkisstjórninni. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér segir hann þó að hann sé pólitískur talsmaður flokksins og beri ábyrgð á starfi flokksins í ríkisstjórn. Hann muni samkvæmt því umboði leiða stefnumörkun og starf Samfylkingarinnar innan flokks og utan, í samræmi við venju og hefðir þar um.
„Í kjölfar formannsskipta í Samfylkingunni um síðustu helgi hef ég metið með hvaða hætti er best að haga liðsskipan Samfylkingarinnar í ríkisstjórn næstu vikur. Við það mat hef ég haft að leiðarljósi tvennt: Hagsmuni þjóðarinnar af stjórnfestu og þá nauðsyn að finna fyrirheitinu um ný vinnubrögð og hreinskiptin stjórnmál farveg í verkum Samfylkingarinnar við landsstjórnina," segir Árni Páll í yfirlýsingu sem hann birtir á vef flokksins.
Hann segir það vera niðurstöðu sína að gera ekki við þessar aðstæður tillögu um breytingu á ríkisstjórn. Fáar vikur séu eftir til kosninga og flest öll lykilmál séu þegar komin til meðferðar á Alþingi. Ekki sé því ástæða til breytinga á ríkisstjórn við þessar aðstæður.
Árni Páll krefst ekki ráðherrastóls
Jón Hákon Halldórsson skrifar
