Innlent

Árni Páll með yfirhöndina samkvæmt nýrri könnun

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Árni Páll Árnason nýtur sextíu og tveggja prósenta stuðnings á meðal Samfylkingarfólks samkvæmt könnun fréttastofu Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Guðbjartur Hannesson mælist með þrjátíu og sjö prósenta fylgi.

Könnunin var framkvæmd þann sextánda og sautjánda þessa mánaðar og ef litið er til þeirra sem taka afstöðu, óháð því hvaða flokk þeir segjast kjósa, fær Árni Páll Árnason fimmtíu og fjögur prósenta fylgi og Guðbjartur þrjátíu og sjö prósent. Níu prósent nefna síðan einhvern annan.

Kosning til formanns Samfylkingarinnar stendur nú yfir og lýkur henni þann tuttugasta og áttunda þessa mánaðar, rétt fyrir landsfund flokksins þar sem úrslit verða kunngjörð.

Þegar aðeins er litið til þeirra þátttakanda í könnuninni sem segjast styðja Samfylkinguna eykst fylgi Árna Páls nokkurð. Hann mælist með sextíu og tveggja prósenta fylgi og Guðbjartur með þrjátíu og sjö prósent. Og þrátt fyrir að framboðsfrestur sé runninn út nefnir eitt prósent aðspurðra þó einhvern annan frambjóðanda.

Í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun var greint frá annarri könnun þar sem spurt var að því sama og þar hafði Guðbjartur yfirhöndina á meðal Samfylkingarfólks, með 53 prósent á móti 48 prósentum hjá Árna Páli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×