Innlent

Óvissustig áfram í gildi - 36 í einangrun á spítalanum

Þrjátíu og sex manns eru í einangrun á Landspítalanum. Spítalinn er enn á óvissustigi og fundað er daglega til að fara yfir stöðuna. Þegar er byrjað að undirbúa komandi helgi tl að tryggja að nægt starfsfólk sé á vakt.

Framkvæmdastjórn Landspítalans og farsóttanefnd hittist um hádegisbilið í dag vegna ástandsins á spítalanum. Þar er enn viðbragðasáætlun í gangi. Meirihluti þeirra sem eru í einangrun eru það ýmist vegna inflúensu, nóróveiru eða RS-víruss.

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á spítalanum, segir litlar breytingar hafa verið á stöðunni frá því fyrir helgi. Óvissustigi var lýst yfir á föstudag vegna þess hversu yfirfullur spítalinn var. Þar sem starfsfólki fækkar iðulega um helgar þurfti að kalla út á aukavaktir. Már segir starfsfólk nú ná að halda sjó en þegar sé byrjað að undirbúa vaktir um komandi helgi.

Sömu deildir eru opnar nú og í síðustu viku, svonefndum valaðgerðum haldið í lágmarki eða frestað, og einblínt á þær aðgerðir sem eru lífsnauðsynlegar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×