Innlent

Skoða aðstæður í Reykjavík fyrir íþróttaleika samkynhneigðra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sendinefnd á vegum GLISA, alþjóðasamtaka samkynhneigðra verður í Reykjavík dagana 26. - 27. janúar næstkomandi til þess að skoða aðstæður í borginni vegna umsóknar Reykjavíkurborgar um að halda World Outgames, íþróttaleika samkynhneigðra, árið 2017. Nefndin kemur hingað til lands frá Miami í Bandaríkjunum sem kemur einnig til greina sem gestgjafi leikanna.

Farið verður með fulltrúa nefndarinnar vítt og breitt um borgina, skoðuð verður íþróttaaðstaða í Laugardal , Nauthólsvíkin og aðstaða þar til sjósunds, Harpa og aðstaða þar til mannréttindaráðstefnu í tengslum við leikana, auk annarra viðkomustaða.

Auk Reykjavíkurborgar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins tekur fjöldi aðila þátt í kynningu á borginni. Þeirra á meðal er Íþróttasamband Íslands, Íþróttabandalag Reykjavíkur, Ráðstefnuborgin Reykjavík, Saga Film, Pink Iceland, Samtökin78 og fleiri.

Kynningin er mikilvægur liður í umsókn Reykjavíkurborgar um að fá að halda leikana árið 2017 og 28. febrúar næstkomandi verður tilkynnt hvor borgin, Reykjavík eða Miami, verður fyrir valinu sem gestgjafi leikanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×