Innlent

Hallgrímur hnýtir í Jón Viðar - vill gagnrýnendur á hærra plani

Hallgrímur Helgason rithöfundur ræðst harkalega á leikhúsgagnrýnandann Jón Viðar Jónsson í DV í dag vegna gagnrýni þess síðarnefnda á leikriti William Shakespeare, Macbeth, sem er sýnt í Þjóðleikhúsinu þessa dagana.

Leikstjóri er Ástralinn Benedict Andrews, en flestir gagnrýnendur er sammála um að uppsetning leikritsins sé óhefðbundin. Jón Viðar var aftur á móti heldur óvæginn í garð sýningarinnar sem hann gaf eina stjörnu, og sagði að aðalleikarar sýningarinnar mættu skipta henni samviskusamlega sín á milli.

Hallgrímur sér sig knúinn til þess að koma sýningunni til varnar í langri grein í DV í dag. Titill greinarinnar er: Á þetta að vera gagnrýni?

Titillinn er raunar skrumskæling á titli Jóns Viðars sem var: Á þetta að vera Macbeth?

Í grein sinni gagnrýnir Hallgrímur Jón Viðar meðal annars fyrir að minnast ekki á nýja þýðingu Þórarins Eldjárns á leikritinu auk þess sem honum þykir spurning Jóns Viðars, þar sem hann spyr hvaða erindi leikstjórinn eigi við Shakespeare, hrokafull.

Í lok greinarinnar skrifar Hallgrímur um sigra íslensks leikhús undanfarin ár og nútímavæðingu þess en segir svo: „Líkt og í fleiri listgreinum hefur okkar litla sena komist á örlítið hærra plan. Óskandi væri að gagnrýnendur kæmust þangað líka."

Hér má lesa hluta af gagnrýni Jóns Viðars, en grein Hallgríms birtist í heild sinni á vef dv.is næsta sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×