Innlent

Hjörleifur Guttormsson yfirgefur VG

Boði Logason á Grand Hóteli skrifar
Frá fundi VG á Frand Hóteli í kvöld.
Frá fundi VG á Frand Hóteli í kvöld.
„Ég kveð Vinstri hreyfinguna grænt framboð hér og nú með blendum tilfinningum, og þakka um leið mörgum ykkar fyrir ánægjulega samfylgd," sagði Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi þingmaður og félagsmaður VG frá stofnun, á flokksráðsfundi VG sem stendur nú yfir á Grand Hóteli í Reykjavík.

Þegar Hjörleifur tilkynnti úrsögn sína úr flokknum fór kliður um salinn og virtust margir gáttaðir á þessari ákvörðun hans. Í ræðu sinni fór Hjörleifur yfir starf flokksins frá stofnun hans, árið 1999. Hann sagði að í fyrstu hafi félagsmenn barist af bjartsýni og eldmóði og að þeir hafi lagt mikið á sig til að byggja upp stefnu hans. En hann segir að frá því að þetta kjörtímabil hófst árið 2009 hafi gjörbreyting orðið á störfum flokksins til hins verra. „Það hefur ítrekað verið brotið gegn yfirlýstri stefnu hans og kosningaloforðum," sagði hann meðal annars.

Hann gagnrýndi þá ákvörðun flokksins að hefja aðildarviðræður við ESB en hann sagði ESB vera eitraðan kokteil. Ómerkilegt væri að láta það líta svo út að farið hefði verið í aðildarviðræður til að þjóðin gæti tekið ákvörðun um málið. „Það var ekki verið að sækja um aðild þjóðarinnar vegna heldur til að halda ríkisstjórninni á lífi," sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×