Innlent

Stjórnlagafrumvarpið afgreitt

Frá fundi stjórnlagaráðs.
Frá fundi stjórnlagaráðs.
Sex af níu fulltrúum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis greiddu atkvæði með því að stjórnlagafrumvarpið yrði afgreitt úr nefndinni.

Valgerður Bjarnadóttir, formaður nefndarinnar, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu. Hún sagði fulltrúa Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafa greitt atkvæði gegn tillögunni. Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, samþykkti frumvarpið en skrifaði þó ekki undir nefndarálitið.

„Nú verður frumvarpið lagt fyrir þingið. Það verður hægt að taka það á dagskrá eftir helgi," sagði Valgerður. Hún sagði þó alls óvíst hvenær málið yrði tekið fyrir hjá þingmönnum.

Valgerður sagði nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu í kjölfar umsagna og athugasemda sem gerðar hafa verið. Varðandi helstu breytingar sagði Valgerður:

„Ég tel mjög merkilegt ákvæði um utanríkismál í 111. grein, um framsal ríkisvalds, sem er talsvert breytt frá því sem stjórnlagaráð lagði til. Þá hverfum við aftur til tillagna stjórnlagaráðs í 14,, 15. og 16. grein sem eru um upplýsingafrelsi," sagði Valgerður.

Auk þess hafi orðinu „einkaréttur" í grein 34 um náttúruauðlindir verið breytt yfir í „einkaeigu" á nýjan leik. Þá hafi 39. grein um alþingiskosningar verið breytt að því leyti að löggjafanum er falið að útfæra kosningalögin. Hins vegar séu helstu grundvallaratriði sem lögð voru til enn á sínum stað.

Frumvarp stjórnlagaráðs má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×