Innlent

Aðeins Íslendingar fá að eiga fasteign

Húsaþyrping í miðbæ Reykjavíkur.
Húsaþyrping í miðbæ Reykjavíkur.
Í drögum að frumvarpi um breytingar á lögum um eignarétt og afnotarétt fasteigna á Íslandi felst að aðeins Íslendingar geta eignast fasteignir hér á landi.

Drögin að frumvarpinu hafa verið birt á heimasíðu innanríkisráðuneytisins. Þar segir að lagðar séu til breytingar á almennum skilyrðum þess að einstakir menn öðlist eignar- eða afnotarétt yfir fasteignum hér á landi. Mælt verði fyrir um það að einstakir menn þurfi að vera íslenskir ríkisborgarar eða með lögheimili á Íslandi.

Þó er settur sá fyrirvari á að réttur hinna síðargreindu einskorðist við fasteign hér á landi til að halda þar heimili og/eða frístundahús, enda fylgi þeim einungis venjuleg lóðarréttindi en ekki önnur réttindi, svo sem veiðiréttur eða vatnsréttindi.

Á heimasíðu ráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið hafi stuðst við tvö álit. Annað þeirra sé frá Eyvindi G. Gunnarssyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands og Valgerði Sólnes lögfræðingi. Hitt er frá Jens Hartig Danielsen, prófessor við lagadeild Háskólans í Árósum og Stefáni Má Stefánssyni, prófessor við lagadeild HÍ. Í þeirri síðari er fjallað sérstaklega um reglur EES-samningsins um frjáls fjármagnsflutninga og fjárfestingu í fasteignum.

Drögin má sjá á heimasíðu ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×