Innlent

184 brautskráðir frá HR

Handhafar verðlauna Viðskiptaráðs Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur
Handhafar verðlauna Viðskiptaráðs Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur Mynd/Golli
Háskólinn í Reykjavík brautskráði í gær 184 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi úr öllum fjórum námsdeildum háskólans; lagadeild, tækni- og verkfræðideild, tölvunarfræðideild og viðskiptadeild.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, flutti hátíðarávarp, Eggert Benedikt Guðmundsson, varaformaður Viðskiptaráðs Íslands afhenti nemendum viðurkenningar VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur og Sverrir Haraldsson, útskriftarnemandi í tækni- og verkfræðideild, flutti ávarp fyrir hönd nemenda háskólans.

Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, flytur lokaávarpMynd/Golli
Lokaávarp flutti Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR:

„Það er vel þekkt og margstaðfest í rannsóknum að góð menntun eykur lífsgæði og samkeppnishæfni einstaklinga. Það birtist þó ekki eingöngu í tækifærum og veraldlegum ávinningi, heldur líka í betri líðan og virkari þátttöku. Hið sama gildir fyrir samfélög - aukin menntun leiðir beint til meiri hagsældar, en aukinni menntun fylgir líka meiri jöfnuður í þjóðfélaginu.

Það er deginum ljósara að verulega þarf að auka verðmætasköpun á Íslandi til að standa undir væntingum okkar um lífskjör sem og skuldbindingum okkar til framtíðar. Slíkt verður ekki gert með því einu að auka sókn í takmarkaðar náttúruauðlindir. Eina sjálfbæra leiðin fram á við er að byggja á hugviti og þekkingu til að skapa okkur verðmæti og lífskjör til framtíðar. Þörfin á vel menntuðu og hæfu fólki mun því halda áfram að aukast næstu ár og áratugi."

Eggert Benedikt Guðmundsson, varaformaður VI, afhendir verðlaun VI fyrir framúrskarandi námsárangurMynd/Golli
Í fréttatilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík segir að skólinn útskrifi tvo af hverjum þremur sem ljúka háskólanámi í tæknigreinum, helmingi þeirra sem ljúka viðskiptafræði og þriðjung þeirra sem ljúka laganámi.

Mynd/Golli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×