Innlent

Niðurstaðan bindandi en ekki ráðgefandi

Niðurstaða EFTA-dómstólsins um hvort að Íslendingar hafi brotið Evróputilskipun um innistæðutryggingar verður kveðinn upp á morgun. Hver svo sem niðurstaðan verður er ljóst að hún verður bindandi en ekki ráðgefandi eins og haldið hefur verið fram.

Kjarni málsins er þessi: Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, stefndi íslenska ríkinu fyrir að mismunað innistæðueigendum í Bretlandi og Hollandi þegar greiðslur til íslenskra innistæðueigenda voru tryggðar.

Lárus Blöndal, hæstaréttarlögmaður, átti sæti í Icesave-samninganefndinni svokölluðu. Hann vonast til að niðurstaða EFTA-dómstólsins verði íslenska ríkinu hliðholl enda væri það staðfesting á þeim sjónarmiðum sem hann og Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, höfðu á sínum tíma um Icesave-samninginn.

Tapi íslenska ríkið málinu þá verður það af ástæðum sem lúta að því tryggja bankakerfi Evrópu, að mati Lárusar.

„En ef við töpum málinu þá er ljóst að það er endanleg niðurstaða, þetta er ekki eitthvað lögfræðiálit, heldur niðurstaða sem við erum bundin af og við verðum að gera ráðstafanir til að framfylgja dómnum."

Verði niðurstaðan sú að íslenska ríkið verði sýknað af kröfu ESA er málinu þar með lokið. Í því tilfelli er þó óvíst hver næstu skref Hollendinga og Breta verða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×