Innlent

Hundleiðinlegi gluggapósturinn kemur ekki aftur inn um lúguna

„Hvað mig varðar þá bjó ég mig undir það versta en vonaði það besta. Ég held að flestir Íslendingar hafi upplifað það þannig," sagði Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag. Nú fer fram umræða um dóm EFTA-dómstólsins frá því morgun, þar sem íslenska ríkið var sýknað af öllum kröfum ESA.

„Við vissum einfaldlega ekki hvernig þetta myndi fara en þetta er gríðarlega ánægjulegt. Nú er þetta leiðindamál úr sögunni og það er mjög mikilvægt að við minnum okkur á það að allir þeir sem rökræddu þetta mál, gerðu það á grundvelli sinnar vitundar, samkvæmt sínum túlkunum sem lá fyrir á sínum tíma. Við eigum öll að fagna því og gleðjast, við vorum öll að hugsa um hagsmuni íslensku þjóðarinnar á hverjum tíma," sagði Guðmundur.

Hann sagði einnig að tíminn hafi unnið með Íslandi í þessu máli, og benti á að eflaust hefði ekki verið mikil stemming fyrir málarekstrinum strax eftir hrun. Þá sagði hann að allir þingmenn hefðu verið orðnir sérfræðingar í þessu leiðindamáli.

„Mér efst í huga er þakklæti til málsvarnarteymisins, ég sá það á fundi með fulltrúum þeirra í morgun, að úr andlitum þeirra skein einlæg gleði frá þeim," sagði Guðmundur.

„Við eigum að nýta okkur þessa bjartsýni sem við vonandi finnum á þessari stundu, til þess að verða gott veganesti til að glíma við öll þau fjölmörgu verkefni sem blasa við okkur og megi framtíðin verða björt. Þessi hundleiðinelgi gluggapóstur hann kemur þá vonandi ekki aftur inn um lúguna. "




Fleiri fréttir

Sjá meira


×