Innlent

Annasamt hjá björgunarsveitum

Síðdegis í dag og í kvöld hafa björgunarsveitir á Norðurlandi verið að störfum. Veður var slæmt á Húsavík seinnipartinn en þar sinnti Björgunarsveitin Garðar nokkrum aðstoðarbeiðnum, m.a. var þak að fjúka, tré að falla og grindverk losnaði á byggingarsvæði.

Á Siglufirði losnuðu þakplötur af enn einu húsinu en í gær sinnti Björgunarsveitin Strákar nokkrum slíkum útköllum. Flugbjörgunarsveitin í Varmahlíð hefur svo verið á Öxnadalsheiði í kvöld að aðstoða nokkra ökumenn sem annað hvort sitja fastir eða hafa ekið útaf.

Ábendingar frá veðurfræðingi:

Ekki eru horfur á að það lægi að gagni um norðvestan- og norðanvert landið fyrr en í fyrsta lagi seint í nótt og í fyrramálið. Skafrenningur og lítið skyggni á Vestfjörðum og Norðurlandi, en dregur heldur úr ofankomunni. Á Austurlandi nálgast nýtt úrkomusvæði og með vaxandi hríðarveðri að nýju á fjallvegunum. Krapi verður eða bleytusnjór á láglendi.

Á Kjalarnesi og sunnanverðu Snæfellsnesi verða hviður 30-40 m/s fram á kvöld en síðan hagstæðari vindátt þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×