Innlent

Lýst yfir óvissustigi á Landspítalanum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Óvissustigi hefur verið lýst yfir á Landspítalanum vegna inflúensu, Nóró- og RS vírusa. Forstjóri spítalans segir að ástandið sé alvarlegt.

Fjörutíu sjúklingar eru nú í einangrun á Landspítalanum en yfir hundrað hafa leitað á bráðamóttöku síðustu daga vegna inflúensu. Spítalinn hefur nú lýst yfir óvissustigi þar sem álag er orðið mjög mikið.

„Það hefur verið mikið flæði af sjúklingum inn sem eru með hinar ýmsu veirupestir - aðallega inflúensu en einnig Nóro síðustu daga og spítalinn er orðinn troðfullur og vel það," segir Björn Zoega forstjóri Landspítalans.

Björn segir að ástandið sé alvarlegt en fólk er beðið um að takmarka heimsóknir á spítalann á meðan á þessu stendur.

„Það er alvarlegt og við erum bara að bregðast við því svo við getum bara ráðið við þetta núna og svo sjáum við hvernig þetta fer á næstu dögum."

Síðast var lýst yfir óvissustig á Landspítalanum þegar svínaflensan gekk yfir landið árið 2009.

„En það sem er núna að gerast er það að við höfum erum að lenda í því að fá þrjár mismunandi veirupestir á sama tíma sem er mjög óvenjulegt og svo virðist þessi inflúensa vera skæðari en þær sem hafa verið síðustu ár ef marka má reynslu nágrannalandanna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×