Innlent

KÚ kærir Mjólkursamsöluna

Mjólkurbúið KÚ hefur kært Mjólkursamsöluna fyrir ítrekuð brot á 10. og 11. grein samkeppnislaga með því að krefja KÚ um hærra verð fyrir hrámjólk en aðra kaupendur.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá KÚ sem send var fjölmiðlum í dag. Þar segir að KÚ krefjist þess að Samkeppniseftirlitið stöðvi framgöngu Mjólkursamsölunnar þegar í stað og stjórnendur og fyrirtækið sæti ábyrgð vegna brota sinna.

Þá er þess krafist að Mjólkursamsalan endurgreiði KÚ oftekinn kostnað sem mjólkurbúið metur til 16 milljóna króna auk vaxta og annars kostnaðar sem hlotist hefur vegna viðskiptanna.

Fréttatilkynninguna frá KÚ má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

Mjólkurbúið KÚ hefur kært Mjólkursamsölunna fyrir ítrekuð brot á 10. og 11. grein samkeppnislaga með því að krefja KÚ um hærra verð fyrir hrámjólk en aðra kaupendur. Kæran gegn Mjólkursamsölunni var lögð inn til Samkeppniseftirlitsins fyrr í dag en í framhaldinu verður lögð fram hjá lögreglu kæra á hendur forstjóra Mjólkursamsölunnar og stjórnarformanni, en brot á 41. gr. Samkeppnislaga geta varðað við almenn hegningarlög. Þess er krafist að Samkeppniseftirlitið stöðvi framgöngu Mjólkursamsölunnar þegar í stað og að stjórnendur og fyrirtækið sæti ábyrgð vegna brota sinna. Þá er þess krafist að Mjólkursamsalan endurgreiði KÚ oftekinn kostnað upp á 16 milljónir króna auk vaxta og annars kostnaðar sem hlotist hefur vegna viðskiptanna.

Mjólkurbúið KÚ ehf. áskilur sér fullan rétt til að krefjast skaðabóta úr hendi Mjólkursamsölunnar vegna framgöngunnar en ljóst er að henni var ætlað að hindra samkeppni á mjólkurvörumarkaði. Rétt er að árétta sögu samkeppni á mjólkurvörumarkaði en Mjólkursamsalan hefur lagt að velli alla keppinauta sína frá árinu 1935 fyrir utan einn sem var keyptur upp.  Við brot sín hefur Mjólkursamsalan notið stuðnings og skjóls stjórnvalda á hverjum tíma og svo er einnig nú.  Kæran verður jafnframt send til Eftirlitsstofnunar EFTA ásamt kæru á hendur íslenskum stjórnvöldum vegna undanþágu ákvæða er undanskilja íslenskan mjólkuriðnað að hluta frá samkeppnislögum.

Í kærunni kemur fram að Mjólkursamsalan hefur frá því viðskipti þessara aðila hófust í nóvember 2010 misnotað markaðsráðandi stöðu sína og krafið KÚ um ósanngjarnt söluverð sem er tæplega 17% hærra hrámjólkurverð en aðrir kaupendur greiða fyrir hrámjólk frá Mjólkursamsölunni.  Á reikningi sem stílaður er á Mjólku frá 6.mars 2012 kemur fram að Mjólka greiðir 77,69 krónur fyrir hvern líter af hrámjólk en á reikningi sem stílaður er á Mjólkurbúið KÚ þann 17.apríl 2012 kemur fram að Mjólkurbúið greiðir 90,74 krónur fyrir hvern líter af hrámjólk.  Mjólkurbúið KÚ greiðir því 13,05 króna  hærra verð fyrir hvern líter af hrámjólk eða 16,80% hærra verð en Mjólka greiðir. Forstjóri Mjólkursamsölunnar hefur ekki,  þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir þar um,  lagt fram trúverðug gögn er styðja fullyrðingar hans í fjölmiðlum um að Mjólka beri annan kostnað sem ekki kemur fram á reikningum. Framganga Mjólkursamsölunnar er því skýrt brot á 11.gr samkeppnislaga nr. 44 frá 2005 en þar segir:  „Misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu er bönnuð.“ Jafnframt segir í a-lið sömu greinar að „beint eða óbeint sé krafist ósanngjarns kaup- eða söluverðs eða aðrir ósanngjarnir viðskiptaskilmálar settir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×