Innlent

Silfra verður frábær þrátt fyrir bannið

BBI skrifar
Kafað í Silfru.
Kafað í Silfru. Mynd/Vilhelm
Sportkafarafélag Íslands fagnar nýsettum reglum um að óheimilt sé að kafa niður fyrir 18 metra dýpi í Silfru. Reglurnar eru settar í kjölfar þess að banaslys varð í gjánni milli jóla og nýárs og taka gildi 5. janúar næstkomandi.

„Okkur líst mjög vel á þetta," segir Haukur Einarsson, formaður Sportkafarafélagsins.

Hann segir að lengi hafi verið óheimilt að kafa niður fyrir 30 metra dýpi í Silfru og inn í hellana þar. „En það hefur bara hvergi komið fram nema inni á síðunni hjá þeim og það hefur bara ekki verið á allra vitorði. Þannig að við tökum þessari umræðu fagnandi. Nú er þetta bara orðið ljóst, fyrir alla, og verður merkt."

Haukur segir að á ákveðnum stöðum sé mögulegt að fara niður á 60 metra dýpi í Silfru. „En það er alveg hardcore hellir. Ástæðan fyrir því að þetta bann er sett er að það er hrun í hellunum. Það er mjög hættulegt að kafa þar," segir hann.

Silfra er einn fallegasti köfunarstaður í heimi. „Einn af tíu flottustu köfunarstöðum í heiminum. Og það mun ekki breytast þó ekki verði hægt að fara niður fyrir 18 metra dýpi. Fólk sem er að fara svona djúpt er að leita eftir einhverju öðru en fegurðinni í Silfri. Það er meira spennan við að fara svona djúpt í sjálfu sér. Maður verður aðeins ruglaður í hausnum," segir Haukur.


Tengdar fréttir

Banna köfun undir 18 metrum

Þjóðgarðsvörður og Siglingastofnun hafa ákveðið að banna köfun niður fyrir 18 metra í gjána Silfru á Þingvöllum. Þessi ákvörðun er tekin til að tryggja öryggi þeirra fjölmörgu sem kafa í Silfru og vegna aðstæðna í gjánni sem eru til rannsóknar eftir banaslys sem varð þar 28. desember síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×