Innlent

Neitar að skilgreina sig til hægri eða vinstri

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Kosningabaráttan um formannskjör í Samfylkingunni er komin á fullan skrið. Guðbjartur Hannesson gefur engan afslátt á aðildarviðræðum við ESB þegar stjórnarmyndun er annars vegar. Þá vill hann viðhalda þrepaskiptu skattkerfi og segir að aukið traust á stofnunum samfélagsins sé eitt af helstu stefnumálum sínum.

Félag frjálslyndra jafnaðarmanna, eitt aðildarfélaga Samfylkingarinnar í Reykjavík, ætlar að halda málstofur með formannsefnunum. Í dag reið Guðbjartur Hannesson á vaðið og næsta þriðjudag mun Árni Páll Árnason eiga sviðið.

Guðbjartur neitar að skilgreina sig til hægri eða vinstri. Hann sagði að besti mælikvarðinn á íslenskt samfélag væru væntingar ungs fólks og hvar það vildi vinna í framtíðinni.

Hann sagði sjálfstætt stefnumál að efla traust. Bæði á stofnunum samfélagsins og hinu pólitíska kerfi. Þá væri velferðin jafn mikilvæg forsenda fyrir öflugu atvinnulífi og atvinnulífið væri fyrir velferðina.

Í skattamálum sagðist Guðbjartur vilja viðhalda þrepaskiptu skattkerfi hjá einstaklingum.

Þá var hann spurður hvort hann gæti hugsað sér stjórnarsamstarf án aðildarviðræðna við ESB. Hann sagði það ekki í boði. Það þyrfti eitthvað mikið að gerast svo Samfylkingin gæfi afslátt af ESB-málinu.

Í hnotskurn, munurinn á þér og Árna Páli?

„Það er nú ekki sanngjarnt að láta mig draga upp muninn. Ég get dregið upp hvað ég stend fyrir. Ég hef lagt áherslu á þá reynslu sem ég bý yfir, bæði í sveitarstjórnarmálum og velferðarmálum, sérstaklega menntamálum til margra ára," segir Guðbjartur.

Auk reynslu af velferðar- og menntamálum sagðist Guðbjartur vilja leggja áherslu á samvinnu og ólík sjónarmið.

„En líka um leið mikilvægi þeirra grunngilda sem við erum stofnuð utan um, það er að segja jöfnuð og réttlæti og baráttuna fyrir almannahagsmunum í íslensku samfélagi. Þar leggjum við áherslu á að allir geti notið þess að vera hluti af samfélaginu," segir Guðbjartur.

Fjallað verður um fund Árna Páls á Stöð 2 og Vísi næstkomandi þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×