Innlent

Stefnir í óefni með stjórnskipun landsins

Það stefnir í óefni með sjálfa stjórnskipun landsins vegna meðferðar ríkistjórnarinnar á stjórnarskrármálinu og því var það rétt af forsetanum að taka á málinu á ríkissráðsfundi. Þetta segir Þorsteinn Pálsson fyrrverandi ráðherra.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands gagnrýndi í nýársávarpi sínu drög að nýrri stjórnarskrá og sagði umræðu um þau komin í öngstræti. Þá greindi hann frá því að hann hefði tekið málið upp á ríkissráðsfundi á gamlársdag.

Þorsteinn Pálsson fyrrverandi ráðherra skrifaði um málið í Fréttablaðinu í dag. Hann segir forsetanum settar mjög þröngar skorður að blanda sér inn í viðfangsefni stjórnmálanna.

„Það getur því aðeins gerst, að mínu mati, að það stefni í óefni með sjálfa stjórnskipu landsins og mitt mat er það að svo sé vegna meðferðarinnar ríkisstjórnarinnar á stjórnarskrármálinu og því hafi það verið rétt af forsetanum að taka á málinu. Það er formlega rétt að gera það í ríkisráðinu og ég tel hann hafi farið rétt að með því að taka málið upp þar. Þar með er þetta formleg athöfn af hans hálfu," segir Þorsteinn.

Hann telur að fordæmi séu fyrir því að forseti taki mál upp í ríkisráði.

„Það þarf ugglaust að leita að því í skjalasöfnum en ég hygg að það séu einhver fordæmi fyrir því en þó varla með svo afgerandi hætti varðandi jafn stórt mál eins og þetta."

Þá telur Þorsteinn að kalla eigi aftur til fundar í ríkisráði. Hann segir eðlileg næstu skref vera að forsætisráðherra geri grein fyrir stöðunni að sinni hálfu á fundi í ríkisráðinu og geri síðan Alþingi og þjóðinni grein fyrir því hvernig hann bregst við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×