Innlent

Slökkviliðsmenn og nemendur unnu hetjudáð

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar segir að slökkviliðsmenn og eldri bekkingar í grunnskóla Siglufjarðar hafi unnið hetjudáð þegar eldur kom upp í samkomuhúsi á þrettándagleði í gær.

Eldurinn kom upp þegar lítil stúlka sem var á þrettándagleðinni á Allanum á Siglufirði ásamt ömmu sinni og afa kveikti í flugeld inni í herbergi þar sem fleiri slíkir voru geymdir. Stúlkunni varð ekki meint af frekar en öðrum í húsinu en eins og þessar myndir bera með sér má það undrum sæta að ekki hafi farið verr.

Reykurinn gýs þarna upp og fer inn í salinn þar sem um 120 manns voru, mest börn," segir Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar.

Sp. blm. Það vildi svo til að það voru slökkviliðsmenn á staðnum?

„Já, það voru þrír eða fjórir slökkviliðsmenn þarna og þeir brugðust alveg hárrétt við," segir Ámundi.

Ámundi segir það hafa skipt máli að krakkarnir í skólanum hafa farið í gegnum rýmingaræfingar og því hafi allir haldið ró sinni. Börnin hafi samt eðlilega orðið skelkuð.

„Sérstaklega þau yngstum. Tíundi bekkur var að aðstoða Kiwanis-klúbbinn við brennuna og dansleikin og þau stóðu sig líka eins og hetjur."

Ámundi fór síðan ásamt fulltrúa Rauða krossins í grunnskólann í morgun og ræddi atvikið við börnin og segir hann að áfallahjálp standi þeim til boða sem slíkt vilja.

„Ég kalla þetta hetjur, þessa menn sem voru þarna og krakkana þessa eldri, að hjálpast að við þetta. Af því þetta hefði getað farið á alveg skelfilegan máta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×