Innlent

Hundrað manns fá vinnu við endurbætur á Leifsstöð

GS skrifar
Um það bil hundrað manns, einkum iðnaðarmenn, fá á næstunni vinnu við breytingar og endurbætur í Leifsstöð, sem á að ljúka fyrir háannatímann í sumar. Vel á þriðju milljón farþega fóru um stöðina í fyrra.

Breytingar verða gerðar á afgreiðslu- og biðsvæðum farþega og sjálfsinnritunarstöðvum verður fjölgað. Þá verður svæði fyrir verslunar- og veitingaþjónustu við brottfararhlið í Suðurbyggingu stækkað og sætum á biðsvæðum verður fjölgað til muna. Kostnaður við þetta er metinn á vel á annan milljarð króna.

Að sögn Isavia, er þetta gert til að mæta ört vaxandi fjölda farþega um stöðina , en tvær milljónir og 380 þúsund farþegar fóru um stöðina í fyrra, sem er hátt í 13 prósenta aukning frá árinu áður og met til þessa. Þá áætlar Isavia að aukningin í ár nemi hátt í tíu prósentum. Farþegar til og frá landinu í fyrra voru rösklega 1,9 milljón, en skiptifarþegar, sem aðeins hafa viðdvöl á vellinum á leið yfir hafið, voru rösklega 433 þúsund manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×