Innlent

Myndband af flugdólgnum komið á netið: "Þessi á eftir að dúsa lengi í fangelsi“

Myndband af flugdólgnum sem farþegar Icelandair yfirbuguðu með þeim afleiðingum að hann var reyrður við sæti sitt, er komið á netið. Meðal annars hefur AP fréttastofan birt myndbandið.

Það má einnig finna á myndbandavefnum Youtube, en þar sést hvernig farþegi í sætaröð fyrir aftan dólginn tekur myndbandið upp og segir meðal annars: "Þessi náungi á eftir að dúsa mjög lengi í fangelsi."

Myndbandið er nokkuð óhugnanlegt, við vörum fólk við því, en þar má sjá dólginn hálfgrátandi og bugaðan með límband fyrir munninum.

Dólgurinn vakti nokkurn ótta farþega í fluginu, en fréttastofan ræddi við Bandaríkjamann síðasta föstudag, þann sama og tók myndina af honum, en hann sagðist hafa verið óttasleginn við manninn sem sat í sömu sætaröð.

Flugdólgurinn var ekki kærður þegar hann kom til Bandaríkjanna á föstudaginn, heldur var hann fluttur á spítala vegna áfengisneyslu sinnar. Icelandair hefur þó tilkynnt að hann verði kærður hér á landi, en refsing við broti hans getur varðað allt að sex ára fangelsi. Eins og kunnugt er þá var hann yfirbugaður eftir að hann tók mann hálstaki, hrækti á farþega og hrópaði að flugvélin væri að hrapa.

Dólgurinn, sem er Íslendingur á fimmtugsaldrinum búsettur á Barbados, hefur vakið heimsathygli, þá helst fyrir að hafa verið límdur með límbandi við sæti sitt. Það er staðlaður búnaður að því er virðist í íslenskum flugvélum. Samkvæmt fréttastofunni CNN þá eru handjárn í bandarískum flugvélum.

Uppfært klukkan 12:07:

Myndbandið hefur nú verið tekið af YouTube en hér fyrir neðan má sjá myndbandið hjá ABC-fréttastofunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×