Hafsteinn og Kristján Valdimarssynir geta orðið danskir meistarar í blaki í kvöld þegar lið þeirra Marienlyst sækir Gentofte heim í þriðja leik liðanna í úrslitunum.
Marienlyst hefur unnið sigur í tveimur fyrstu leikjunum og stendur því vel að vígi fyrir leikinn í kvöld. Liðið varð bikarmeistari í janúar eftir sigur á Spentrup og getur því fullkomnað tímabilið með sigri í kvöld.
Hafsteinn og Kristján eru 23 ára gamlir en þeir eru báðir 204 sentimetrar á hæð. Hafsteinn Valdimarsson var á dögunum kjörinn Íþróttamaður Hveragerðis 2012 en bróðir hans var einnig tilnefndur.
Leikurinn í kvöld hefst klukkan 17.45 að íslenskum tíma og er í beinni útsendingu á vefsíðunni Kanalsport. Smellið hér.

