Innlent

Dúxaði átján ára frá Fjölbrautaskóla Suðurlands

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Gísli Þór Axelsson brautskráðist í gær ásamt 95 öðrum nemendum frá Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Gísli Þór Axelsson brautskráðist í gær ásamt 95 öðrum nemendum frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. Mynd/Guðfinna Gunnarsdóttir
„Ég ætla að reyna við inntökupróf í læknisfræði í vor,“ segir Gísli Þór Axelsson, sem í gær brautskráðist af náttúrufræðibraut Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi með hæstu einkunn sem gefin hefur verið við skólann frá upphafi. Meðaleinkunnin er 9,88.

Gísli Þór fæddist árið 1995 og varð átján ára gamall síðastliðið vor. Hann hefur því lokið framhaldsskólanáminu hálfu öðru ári á undan flestum jafnöldrum sínum.

Þessu náði hann með því að ljúka grunnskóla ári á undan og tók síðan fjölbrautaskólann á þremur og hálfu ári.

„Það var samt engin djúp pæling í því,“ segir Gísli Þór, hógværðin uppmáluð. „Ég fór þetta bara á þeim hraða sem mér fannst þægilegur. Var ekkert að flýta mér svo sem.“

Auk þess að dúxa hlaut Gísli Þór fjölmörg verðlaun í einstökum greinum. Hann fékk einnig viðurkenningu fyrir framlag sitt til félagslífs skólans og viðurkenningu frá Hollvarðasamtökum FSu.

Alls útskrifuðust 96 nemendur frá FSu í gær, þar af 68 stúdentar. Fimm nemendur brautskráðust af tveimur brautum, þar af einn af tveimur stúdentsbrautum.

Gísli Þór er fæddur og uppalinn á Selfossi, þannig að beint lá við að velja þennan framhaldsskóla. Hann stefnir á að hefja læknisfræðinám við Háskóla Íslands í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×