Innlent

Vinstri grænir sáttastir með Skaupið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hjálmar Hjálmarsson, í gervi Forseta Íslands, skammar karlalandslið Íslands í handbolta.
Hjálmar Hjálmarsson, í gervi Forseta Íslands, skammar karlalandslið Íslands í handbolta. Mynd/Skjáskot
Minni ánægja var með Áramótaskaupið 2012 en árið á undan samkvæmt nýlegri könnun MMR. 32,7% fannst Skaupið 2012 gott samanborið við 64,8% á síðasta ári.

Tæplega þrisvar sinnum fleiri fannst Skaupið í ár slakt en árið á undan. 47,4% þeirra sem svöruðu könnuninni í ár fannst Skaupið slakt en 17,2% í fyrra.

Samkvæmt könnuninni var nokkur munur á viðhorfi fólks til Skaupsins eftir stjórnmálaskoðunum. Þannig sögðust 49,3% þeirra sem tóku afstöðu og sögðust styðja ríkisstjórnina hafa þótt Skaupið gott. Hins vegar fannst aðeins 27,4% þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina Skaupið gott.

Mest ánægja með Áramótaskaupið ríkti meðal stuðningsfólks Vinstri grænna en 50,6% þeirra sem tóku afstöðuna fannst Skaupið gott. Hins vegar fannst aðeins 23% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins Skaupið gott.

Könnunin var framkvæmd dagana 15.-20. janúar 2013 og var heildarfjöldi svarenda 827 einstaklingar á aldrinum 18-67 ára. Spurt var: „Hvernig fannst þér Áramótaskaupið?" Svarmöguleikar voru: „Mjög slakt", „Frekar slakt", „Bæði og", „Frekar gott" og „Mjög gott." 98,2% tóku afstöðu.

Nánar um könnunina hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×