Alls höfðu 2.284 beðið í þrjá mánuði eða lengur eftir því að komast í aðgerð á einhverju sjúkrahúsa eða heilbrigðisstofnana landsins í október í fyrra. Milli ára hafði fjölgað um 49,1 prósent á biðlistanum eftir því að komast í aðgerð. Á sama tíma árið 2011 biðu 1.532 eftir aðgerð.
Í nýútkomnum Talnabrunni Landlæknisembættisins, þar sem fjallað er um nýjustu tölur um biðlista, er sagt vekja athygli að bið eftir skurðaðgerðum á augasteini og aðgerðum vegna legsigs og brottnáms legs hafi sjaldan verið lengri. Þá haldi biðtími eftir þessum aðgerðum áfram að lengjast.
„Mestu virðist muna um lokun skurðstofa á St. Jósefsspítala í kjölfar sameiningar við Landspítala á árinu 2011," segir í Talnabrunni.
Í talnaefni á vef Landlæknisembættisins má sjá að í október síðastliðnum biðu rúmlega helmingi fleiri eftir því að komast í skurðaðgerð á augasteini en á sama tíma ári fyrr, 1.220 á móti 591 þá. Þá sést að fjölgun á biðlistum eftir legsigs- og legnámsaðgerðum nam 54,3 prósentum á milli ára. Fjölgunin frá því í júní nemur hins vegar tæpum 11 prósentum.
Fram kemur að áætlaður biðtími eftir aðgerð vegna legsigs á Landspítala, þar sem flestar aðgerðirnar eru framkvæmdar, sé nú 65 vikur, eða rúmlega eitt ár og fjórir mánuðir. Í október 2010 hafi hins vegar bara þurft að bíða í tæpar fimm vikur eftir slíkri aðgerð.
„Að öðru leyti var lítil breyting á fjölda þeirra sem beðið höfðu þrjá mánuði eða lengur eftir skurðaðgerð miðað við stöðuna í júní síðastliðnum," segir í umfjöllun Landlæknisembættisins.
Fram kemur að bið eftir augasteinsaðgerð sé lengst á Landspítalanum, eða um eitt og hálft ár, en styst hjá Sjónlagi og Lasersjón, sjö og hálfur til tólf mánuðir.
Bið eftir aðgerð lengdist úr fimm vikum í 16 mánuði
Óli Kristján Ármannsson skrifar
