Innlent

Getur ekki rekið brotajárnsvinnslu án rafmagns

Stígur Helgason skrifar
Brotajárnsvinnslan Fura við Hringhellu í Hafnarfirði verður kannski rafmagnslaus á næstunni ef dómstólar ákveða að Orkustofnun skuli klippa á heimtaugina.
Brotajárnsvinnslan Fura við Hringhellu í Hafnarfirði verður kannski rafmagnslaus á næstunni ef dómstólar ákveða að Orkustofnun skuli klippa á heimtaugina. Fréttablaðið/Arnþór
„Mér finnst helvíti hart ef Alþingi getur sett lög og tekið eigur manna og menn eigi bara að brosa og smæla,“ segir Haraldur Þór Ólason, fyrrverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, sem rekur þar brotajárnsvinnsluna Furu og hefur nú stefnt hinu opinbera vegna nýrra raforkulaga frá árinu 2004.

Haraldur segir málið eiga rætur að rekja til loka níunda áratugar síðustu aldar, þegar hann keypti þrotabú Íslensku stálsmiðjunnar í Hafnarfirði. Í þeim kaupum hafi fylgt spennustöð og tuttugu megavatta heimtaug úr Hamranesi beint inn á dreifikerfið sem nú er í eigu Landsnets. Þá tengingu hefur Haraldur notað í brotajárnsvinnslu sína síðan.

„Árið 2004 setti Alþingi svo ný raforkulög sem sögðu að það væri engum heimilt að vera tengdur beint inn á Landsnet nema hann væri stórnotandi,“ segir Haraldur. Það hafi hann ekki verið og því hafi Orkustofnun ætlað að rjúfa tenginguna.

„Ég mótmælti, taldi að þetta væri eignaupptaka,“ segir hann. Síðan hafi hann staðið í stappi við yfirvöld, fyrst gegnum iðnaðarráðuneytið og nú fyrir dómstólum eftir að hann stefndi Orkustofnun, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Landsneti til ógildingar þeirri ákvörðun Orkustofnunar að klippa skyldi á taugina.

Haraldur ætlar ekki að taka því þegjandi og hljóðalaust að missa tenginguna við dreifikerfi Landsnets.
„Við viljum halda þessari tengingu þarna. Við erum með stóra lóð og þetta eykur verðmæti hennar, og ef það er ekki hægt þá viljum við að það komi einhverjar bætur til,“ segir Haraldur. „Alþingi getur sett lög en það getur ekki sett lög afturvirkt. Ég var búinn að eiga þessa heimtaug og nota hana í fjórtán ár þegar Alþingi setti lögin.“

Haraldur segir að ef honum yrði gert að tengja sig inn á dreifikerfi HS Orku þá mundi það kosta hann 30 til 40 milljónir. „Skilaboðin til mín eru að ég eigi bara að borga þetta sjálfur og sjá um þetta.“ Það geti hann hins vegar ekki sætt sig við.

„Það er ansi hart að þurfa að standa í svona slag vegna þess að einhverjum embættismanninum dettur eitthvað í hug,“ segir Haraldur. Mál hans var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×