Innlent

Safna til stuðnings sýrlensku þjóðinni

Elimar Hauksson skrifar
Sjálfboðaliðar Rauða krossins stóðu fyrir samkomu á Lækjartorgi þar sem vakin var athygli á þjáningum sýrlensku þjóðarinnar.FRéttablaðið/Vilhem
Sjálfboðaliðar Rauða krossins stóðu fyrir samkomu á Lækjartorgi þar sem vakin var athygli á þjáningum sýrlensku þjóðarinnar.FRéttablaðið/Vilhem
Sjálfboðaliðar Rauða krossins komu saman á Lækjartorgi í gær til að vekja athygli á þeim hrikalegu aðstæðum sem Sýrlendingar búa við bæði innan og utan eigin landamæra.

Rauði krossinn vill með þessu sýna samstöðu í verki og hvetja almenning til að gera slíkt hið sama.

Í tilkynningu frá Rauða krossinum segir að í Sýrlandi ríki nú mesta neyð sem hjálparstofnanir hafa þurft að takast á við á undanförnum árum.

Starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Sýrlandi veiti tveimur milljónum manna lífsnauðsynlega aðstoð á degi hverjum. Til að standa undir þeirri aðstoð verði Rauði krossinn á Íslandi að leggja sitt af mörkum.

Sólveig Ólafsdóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi, segir vel hafa tekist til með viðburðinum á Lækjartorgi.

„Þetta hefur vakið vakið heilmikla athygli. Íslendingar sýna mikinn samhug og skilning með fólki í neyð. Við auglýstum samstöðuna ekkert en samt kom fólk af götunni og bað um að fá að taka þátt,“ segir Sóley.

Hún segir systursamtök Rauða krossins, Rauða hálfmánann, vinna hættulegt starf á svæðinu.

„Það hafa 22 sjálfboðaliðar og starfsmenn þeirra látið lífið frá því átökin í Sýrlandi brutust út,“ segir Sóley.

Leggja má söfnun Rauða krossins lið og hringja í söfnunarsímann 904-1500 en þá bætast 1.500 krónur við símreikning.

Þannig megi styðja við verkefni Rauða krossins í Sýrlandi og nágrannaríkjum þar sem milljónir flóttamanna hafast við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×