Fótbolti

HM-draumur Tonny Mawejje og félaga dó í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tonny Mawejje.
Tonny Mawejje. Mynd/Daníel
Tonny Mawejje og félagar í landsliði Úganda komast ekki á HM í Brasilíu næsta sumar en það var ljóst eftir að Úgandamenn töpuðu í kvöld í hreinum úrslitaleik við Senegal um sigur í riðlinum og þar sem sæti í útsláttarkeppninni.

Tonny Mawejje leikur eins og kunngt er með liði ÍBV í Pepsi-deildinni og hefur verið í Eyjum undanfarin fimm tímabil.

Senegal var á heimavelli á móti Úganda í kvöld og vann leikinn 1-0. Sadio Mané, leikmaður Salzburg í Austurríki, skoraði sigurmarkið á 84. mínútu en Úgandaliðið, sem varð að vinna leikinn, var þá búið að vera manni færri frá 36. mínútu þegar Godfrey Walusimbi fékk rautt spjald.

Tonny Mawejje spilaði allan leikinn í kvöld en Úganda hefur aldrei komist í úrslitakeppni HM.

Senegal er ein af tíu þjóðum sem spila í útsláttarkeppninni en fimm umspilsleikir gera þá út um hvaða fimm Afríkuþjóðir verða með á HM í Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×