Innlent

"Bifröst skilar engu til íslensks samfélags“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Kári Stefánsson vill loka Háskólanum á Bifröst.
Kári Stefánsson vill loka Háskólanum á Bifröst. Mynd/Samsett
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í Sprengisandi á Bylgunni í morgun. Kári ræddi meðal annars um stöðu íslenska menntakerfisins og telur sameining háskóla hér á landi brýna. Hann segir m.a. að háskólinn á Bifröst skili engu til íslensks samfélags.

„Mér finnst það afskaplega skringilegt að nú er skorið niður um 1,5% hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og gerðar kröfur um að menn skili fljótt meiri árangri í námi sem bitnar fyrst og fremst á ungum konum sem eiga börn. Þetta hefur fyrst og fremst áhrif á konur frekar en karlmenn sem mér finnst óskynsamlegt,“ segir Kári.

„Það er spennandi að sjá hvort hæstvirtur menntamálaráðherra hafi kjark í sér til að leggja til að það verði sameinaðir skólar í íslensku skólakerfi. Hvort hann hafi kjark í sér til að sameina Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands, hvort hann hafi kjark í sér til að til þess að loka dýrum stofnunum eins og Hólaskóla, Hvanneyrardeild við Háskóla Íslands, loka Bifröst sem leggur ekkert til íslensks samfélags, eða hafi kjark í sér til að ná utan um rekstur Háskólans á Akureyri þannig að hann sjái að mestu leyti um verkmenntun.

Þetta eru hlutir sem gætu sparað nokkra milljarða á ári í rekstri. Við erum í það litlu samfélagi að það er raunverulega dálítill dónaskapur að ætlast til þess að við getum rekið háskóla, hvað þá að við getum búið til 10-20 stofnanir sem við köllum háskóla. Það er út í hött. Svona lítið samfélag getur ekki rekið nema einn almennilegan háskóla og samkeppnin á að vera við háskóla erlendis, ekki við skóla hér á landi.“

Kári er ekki bjartsýnn á að Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra muni taka á málinu á kjörtímabilinu. „Ég efast stórlega um að menntamálaráðherra hafi kjark til að gera þetta almennilega og þessi hugmynd um að ætla að stytta nám á sama tíma og það er svolítið atvinnuleysi hér á landi finnst mér óskynsamlegt.“

Stefán Jón Hafstein, fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, og Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tóku undir með Kára. Unnur Brá telur mikilvægt að endurskoða málefni háskóla hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×