Skoðun

Kjósum Ólafíu

Ingibjörg Ósk Birgisdóttir skrifar
Þessa dagana stendur yfir formannskosning í VR. Ásamt sitjandi formanni er í kjöri Ólafía B. Rafnsdóttir. Ólafía hefur sett fram skynsamleg og raunsæ markmið í kjaramálum, um þjóðarsáttarleið sem tryggir í reynd aukinn kaupmátt launa. Önnur helstu áherslumál Ólafíu eru húsnæðismál, starfsþróunarmál og sveigjanleg starfslok. Þetta eru málefni sem koma öllum félagsmönnum VR við. Sjónarmiðum Ólafíu hefur verið vel tekið á kynningarfundum á vinnustöðum í kosningabaráttunni, enda er hún réttsýn, jákvæð og hvetjandi. Það er mikil ábyrgðarstaða að gegna formennsku í fjölmennu stéttarfélagi. Í slíkt embætti þarf að veljast reynslumikil og dugandi manneskja sem á gott með að vinna með öðrum, hlustar af skilningi á ólík rök, lítur jákvætt á hlutina og getur sett í sig spor annarra, manneskja sem reynir ávallt að laða fram það sem er uppbyggilegt, lítur ekki of stórt á sig og áttar sig á því að hún er í senn forystumaður og þjónn fólksins sem veitir henni umboð sitt. VR er öflugt félag sem á sér langa og merka sögu en samt hefur kona aldrei gegnt þar formennsku. Það er fyrir löngu kominn tími til að breyta því og nú hafa VR-ingar gott tækifæri til þess. Konur eru í talsverðum meirihluta meðal félagsmanna og atkvæði þeirra ráða úrslitum. Það verður heillaspor fyrir VR ef Ólafía nær kjöri. Ég hvet félagsmenn VR til að láta gott tækifæri ekki ónotað. Athugið að kosningu lýkur kl. 12 á hádegi föstudaginn 15. mars.



Skoðun

Sjá meira


×