Skoðun

Kjósum Stefán Einar formann VR

Jóhanna S. Rúnarsdóttir skrifar
Hvað hefur einkennt störf Stefáns Einars Stefánssonar, formanns VR? Hann hugsar fyrst og síðast um að bæta kjör félagsmanna og hefur skýra sýn og elju í þeirri vinnu. Vart þarf að taka fram að það er ekki einn maður sem stýrir svo stóru félagi en með samhentu átaki stjórnar og starfsfólks félagsins hefur tekist að hefja VR til vegs og virðingar til hagsbóta fyrir þá 30 þúsund einstaklinga sem eiga aðild að félaginu.

Félagsmenn svo öflugs stéttarfélags þurfa á því að halda að félag þeirra sé stöðugt, að stjórn þess sé samheldin og starfsfólk þess búi við góð starfskilyrði og geti horft fram á veginn. Þess vegna var mjög ánægjulegt þegar nýleg starfskönnun Capacent sýndi að umtalsverð ánægja og góður starfsandi ríkti á skrifstofu VR.

Eitt af mikilvægustu verkefnum VR síðustu ára er Jafnlaunavottun VR sem kynnt var í byrjun febrúar sl. Verkefnið hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli og nú þegar hafa fjölmörg fyrirtæki skráð sig til þátttöku. Jafnlaunavottunin miðar að því að gera ítarlega grein fyrir hinum margvíslegu þáttum sem valda launamun kynjanna – og að lokum eyða honum. Þetta á ekki aðeins eftir að auka hróður VR heldur er þetta mikilvægur þáttur í að útrýma óréttlátum og oft og tíðum óútskýrðum launamun kynjanna. Fyrst og fremst mun þetta verkefni auka styrk kvenna í öllum stöðum atvinnulífsins. VR hefur stigið stórt skref í jafnréttisbaráttunni og mun að öllu óbreyttu leiða þetta mikilvæga starf næstu misseri.

En baráttunni er hvergi nærri lokið. Fram undan er gerð mikilvægra kjarasamninga en stefnt er að undirritun þeirra í lok þessa árs. Félagsmenn VR þurfa á því að halda að Stefán Einar, núverandi formaður félagsins, nýti reynslu sína og þekkingu við gerð þeirra samninga. Stefán Einar hefur sýnt að hann gefur hvergi eftir í baráttu fyrir félagsmenn sína og árangur síðustu tveggja ára sýnir það svo glögglega.

Við hvetjum alla félagsmenn VR til að veita Stefáni Einari Stefánssyni umboð til að sinna þessum mikilvægu verkefnum og fleiri til. Kjósum Stefán Einar til áframhaldandi forystu í félaginu okkar.




Skoðun

Sjá meira


×