Innlent

„Þetta var ótrúlega indæll kall“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Tryggvi var útigangsmaður um langt skeið og ferðaðist um stræti borgarinnar á hjóli.
Tryggvi var útigangsmaður um langt skeið og ferðaðist um stræti borgarinnar á hjóli.
Tryggvi Gunnlaugsson lést í gær en hann er mörgum Reykvíkingum kunnur fyrir sérstakt útlit og fas. Hann var útigangsmaður um langt skeið og ferðaðist um stræti borgarinnar á hjóli.

Tryggva, sem margir þekktu sem Tryggva Hring, er minnst víða á samfélagsmiðlunum í dag og meðal þeirra sem það gera er sjónvarpsmaðurinn Helgi Seljan.

Helgi rifjar upp kynni sín af Tryggva á Facebook-síðu sinni en þeir hittust fyrst í sjoppu þegar Helgi var unglingur. „Við töluðum lengi saman og ég man hvað það kom mér á óvart að þessi slæpti og illa farni maður var skýr og minnugur um smæstu smáatriði,“ skrifar Helgi en seinna urðu þeir Tryggvi nágrannar.

„Ég átti oft eftir að hitta Tryggva sem auðnaðist það sem fáir trúðu að gæti gerst; að hætta að drekka eftir að hafa verið á götunni í fjölda ára. Menn hafa fengið verðlaun fyrir minni sigra en þann.“

„Þetta var ótrúlega indæll kall,“ segir Helgi í samtali við Vísi og rifjar upp sögu af því þegar mikillar reiði gætti í samfélaginu vegna myndbands sem náðist af hópi ungra pilta að hella vatni yfir Tryggva og niðurlægja hann. Þá hafi Tryggvi sjálfur komið drengjunum til varnar.

„Ég man að hann baðst vægðar fyrir þeirra hönd og gerði lítið úr þessu. Þetta kennir manni að maður á ekki alltaf að hlusta á belginn í sjálfum sér og ákveða að þessi sé svona og hinsegin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×