Innlent

"Í takt við það sem ég finn alls staðar"

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir niðurstöðu úr skoðanakönnun MMR ekki koma sér á óvart. Um 63% Íslendinga eru andvígir því að Ísland gangi í Evrópusambandið samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR.

„Þetta er mjög í takt við það sem ég finn alls staðar þar sem ég kem. Það styrkir mig í þeirri trú að þessi vegferð nýtur ekki stuðnings íslensku þjóðarinnar," segir Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Ragnheiður Elín á sæti í utanríkisnefnd en meirihluti hennar lagði fram þingsályktunartillögu fyrri hluta janúar þess efnis að gera hlé á aðildarviðræðum. Þær skyldu ekki hefja að nýju fyrr en þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi aðdilarviðræður færu fram.

„En þá var gripið til þess ráðs af hálfu Vinstri grænna að kippa Jóni Bjarnasyni út af því hann var ekki nógu þægur," segir Ragnheiður. Ekki sé lengur meirihluti fyrir málinu í nefndinni eftir mannaskiptin. Hún reiknar þó með því að þeir þingmenn sem stóðu að tillögunni leggi hana fram í sameiningu á þinginu.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram aðra helgi. Ragnheiður Elín segir að sú stefna að gera hlé á aðildarviðræðum og láta þjóðina kjósa sé áréttuð í drögum sem liggi fyrir fundinum.

„Ég myndi vilja sjá hvort sú stefna yrði ekki ofan á á þeim landsfundi áður en ég færi af stað með þá tillögu (fyrir þingið)," segir Ragnheiður Elín sem segir mikinn meirihluta Sjálfstæðismanna andvígan aðild að ESB.

„Segjum að þjóðin myndi taka upp á því að klára samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem ég hef ekki trú á, þá yrði ég að lúta því sem meirihluti þjóðarinnar myndi ákveða," segir hún en bætir við:

„Í ljósi alls - hvar Evrópusambandið er statt, hvar við erum stödd og þær breytingar sem eru hugsanlega að verða á Evrópusambandinu - finnst mér það fjarstæðukenndasta af öllu vera að halda þessum viðræðum áfram eins og ekkert hafi í skorist. Að búast við því að eitthvað annað komi út úr samningnum en það sem Evrópusambandið stendur fyrir og við vitum hvað er finnst mér vera draumórar."


Tengdar fréttir

63% á móti inngöngu í ESB

Um 63 prósent aðspurðra eru andvígir því að Ísland gangi inn í Evrópusambandið, samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR. Um 24% eru hlynntir því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×