Skoðun

Stuðningur við kjarabaráttu almennra lækna

Ólafur Ögmundarson skrifar
Ég er læknisfrú og finnst það fínn titill, enda hefur það þótt eftirsóknarvert hlutskipti í lífinu síðustu tvær aldir, hið minnsta. Nú eru hins vegar farnar að renna á mig tvær grímur. Ekki vegna þess að konan mín sé ekki jafn yndisleg og áður heldur vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur á stöðu almennra lækna til dagsins í dag.

Til að gefa smá hugmynd um stöðu ungra lækna þá verða þeir, eins og lög gera ráð fyrir, að hafa lokið læknisfræðinámi sem tekur sex ár. Á kandídatsári konunnar (árið 2009) voru grunnlaun hennar 303.000 kr. sem svo hækkuðu í 322.555 kr. þegar hún varð almennur læknir (um mitt ár 2011). Eftir tæp þrjú ár sem almennur læknir er hún komin í 371.382 kr. í grunnlaun, við síðustu útborgun. Við þetta bætist svo vaktavinna, sem er um 90 tímar á mánuði að meðaltali. Ég kýs að setja launin fram á þennan hátt enda er einfaldara um samanburð á launum fólks út frá grunnlaunum. Auk þess er alls kostar óeðlilegt að launþegi þurfi vaktir til að geta séð fjölskyldu sinni farborða.

Miðað við það vaktaálag sem fylgir starfi almennra lækna gefur að skilja að ekki er mikið fjölskyldulíf fyrir þá þegar tarnir eru í gangi í vinnunni. Ekki ber að skilja þetta þannig að ekki megi vera álag en um viðvarandi ástand er að ræða sem þýðir að börnin okkar verða af samskiptum við móður sína aðra hverja helgi og oft inni í miðri viku. Fyrst ég er farinn að blanda börnunum í þetta, þá ber líka að geta að vinnutími lækna er þannig að þeir mæta fyrir 8 í vinnu og deginum lýkur nær alltaf eftir 16.00 sem þýðir að þeir ná heldur ekki að sækja börnin sín nema dagvistunarstofnanir eigi að sjá um að geyma þau í níu tíma á dag. Sem betur fer er vinnu minni þannig háttað að ég get farið með og sótt börnin til þess að þau séu ekki nema um átta tíma á dag í pössun, en sú staða er örugglega ekki á öllum heimilum.

Uppsagnir

Nú er læknirinn „minn“ búinn að segja upp vegna óánægju með lág grunnlaun en ekki síst vegna lélegra vinnuaðstæðna og aðbúnaðar á spítölunum. Lögbundinn frítökuréttur vegna skerts hvíldartíma er ekki virtur, yfirvinna er ekki greidd og ýmislegt annað smálegt, svo sem að starfsfólk sé neytt til að nota eigin farsíma í vinnunni.

Konan mín er ekki ein um að hafa sagt upp. Flestir almennir læknar á lyflæknissviði Landsspítala Háskólasjúkrahúss hafa gert slíkt hið sama og uppsagnarfrestur er einn mánuður. Þessum uppsögnum hefur verið mætt með kæru til Læknafélags Íslands vegna ólöglegra hópuppsagna almennra lækna. Um hópuppsögn er hins vegar ekki að ræða, ekki frekar en þegar hjúkrunarfræðingar sögðu upp fyrir stuttu og var mætt með hækkun launa.

Ég ræð engum að fara í læknisfræði, nema fólk vilji sjá börnin sín lítið og vinna fyrir léleg laun. Læknum þakka ég hins vegar fyrir sitt óeigingjarna starf vegna allra þeirra fórna sem þeir færa, enda er ég stolt læknisfrú. Að lokum langar mig til að segja að ég styð almenna lækna í þeirra aðgerðum og það sorglega er, miðað við viðbrögðin við þessum uppsögnum, að skásti valkosturinn fyrir almenna lækna er að flytja úr landi.




Skoðun

Sjá meira


×