Skoðun

Gefum heilanum gaum! Endurhæfing á minni í MS

Claudia Georgsdóttir skrifar
Minniserfiðleikar geta haft mikil áhrif á daglega líðan, valdið árekstrum og truflað samskipti. Með betri þekkingu og skilningi á tengslum heilavirkni og hugarstarfsemi í MS hefur vægi klínískrar taugasálfræði aukist í miklum mæli, bæði í greiningu og endurhæfingu. Í dag er umræða um skerðingu á hugarstarfsemi í MS-sjúkdómnum sem betur fer orðin opnari sem gerir okkur auðveldara að skoða möguleika á endurhæfingu.

Markmið vitrænnar endurhæfingar er að skoða og bæta þá þætti sem gjarnan láta undan í MS, eins og nýminni, vinnsluminni, einbeitingu, úthald (andleg þreyta) og skipulag til að læra og muna. Minnisaðferðir virkja huga okkar með því að setja atriði og efni sem á að muna í merkingartengsl. Notkun dagbóka er í dag viðurkennd sem áhrifamikil aðferð í vitrænni endurhæfingu, sem bætir skipulagshæfileika, tímaskyn, sjónræna úrvinnslu og hversdagslegt minni. Önnur dæmi um minnisaðferðir eru breytingar á umhverfinu, eins og þegar við komum skipulagi á hluti heima við, eða notum hjálpargögn í umhverfi okkar eins og dagatöl, minnisbækur, orðalista o.fl.

Á hópnámskeiðum um minnisendurhæfingu (sem hafa verið haldin hérlendis af höfundi þessa pistils, til dæmis í MS félagi Íslands), hafa þátttakendur tækifæri til að deila með öðrum reynslu sinni af daglegri gleymsku og sjúkdómseinkennum og geta jafnframt unnið saman við að finna leiðir til að takast á við vandann. Skapandi eðli þessarar vinnu gerir hana sérstaklega ánægjulega og áhrifamikla. Við erum öll sérstök og hver og einn hefur eitthvað til mála að leggja. Þannig lærum við hvert af öðru, veitum hvert öðru stuðning og minnkum fordóma gagnvart gleymsku og minnisvandamálum.

Cicerone, K.D., Langenbahn, M. Braden, C., o.fl. (2011) Evidence-based cognitive rehabilitation: updated review of the literature from 2003 through 2008. Arch Phys Med Rehabil, 92, 519-530.

Tesar, N., Bandion K. og Baumhackl, U. (2005). Efficacy of a neuropsychological training programme for patients with multiple sclerosis – a randomised controlled trial. Wien Klin Wochenschr, 1117/21 – 22, 747-754.




Skoðun

Sjá meira


×