Innlent

Stórstjarna hleypur í skarðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nadja Michael
Nadja Michael Nordicphotos/Getty
Þýska söngkonan Nadja Michael mun hlaupa í skarðið fyrir hina bandarísku sópransöngkonu Deborah Voigt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands annað kvöld.

Voight, sem átti að fara með hlutverk Salóme í samnefndri óperu eftir Richard Strauss, þurfti að afboða komu sína vegna veikinda. Uppnámið er þó ekki meira en svo að ein skærasta söngkona heimsins er klár í slaginn.

Nadja Michael er tíður gestur í frægustu óperuhúsum heims og einmitt margverðlaunuð fyrir túlkun sína á Salóme. Í febrúar 2007 söng hún hlutverk Salóme í La Scala óperuhúsinu í Mílanó við frábærar undirtektir og fylgdi því eftir í áhrifamikilli uppfærslu á Salóme við Konunglega óperuhúsið í Covent Garden í London árið 2008.

Nadja Michael hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir margvísleg óperuhlutverk og listrænan flutning á ferli sínum. Sérlega eftirtektarverð voru verðlaunin Die Goldene Stimmgabel von Arte sem hún fékk fyrir túlkun sína á Salóme árið 2008 og tilnefning til South Bank Show ITV verðlaunanna árið 2009 í flokknum „Ópera" fyrir Salóme í uppfærslu Konunglega óperuhússins í London.

Auk lokaþáttarins í Salóme flytur Sinfóníuhljómsveitin Serenöðu í D-dúr, op. 11 eftir Johannes Brahms og Sjökveðudansinn eftir Richard Strauss. Hljómsveitarstjóri er James Gaffigan. Tónleikarnir hefjast í Eldborgarsal Hörpu föstudagskvöldið klukkan 19.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×