Innlent

Helmingur í kaupmáttarsamdrætti

Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson
Hagsjá landsbankans segir stefna í að kaupmáttaraukning launafólks frá gerð kjarasamninga árið 2011 til loka samninga í nóvember á þessu ári verði ekki nema 3 prósent, þótt laun hafi almennt hækkað um 20 prósent á tímabilinu.

Kaupmáttarauking átta ára á árunum fyrir hrun hafi nánast horfið á síðustu fjórum árum. Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins segir kaupmátt heldur hafa aukist frá árinu 2010.

„Við lentum auðvitað í þessum skelli árið 2008 að við missum nokkuð margra ára kaupmáttarhækkun niður við fall krónunnar. Það heldur áfram inn á árið 2009, mikil verðbólga og litlar launahækkanir," segir Gylfi.

Gylfi segir að þrátt fyrir aukningu kaupmáttar undanfarið hafi ekki tekist að ná þeim kaupmætti sem var árið 2008 en Hagsjá Landsbankans segir kaupmáttinn nú svipaðan og hann var árið 2002.

„Við höfum verið einlæg í því að það muni taka að minnsta kosti tíu til tólf ár að ná þeirri stöðu."

Gylfi segir verðlagsþróun þá mánuði sem eru fram að lokum samninga í lok nóvember ráða miklu um kaupmáttarþróunina. Það hafi verið launaskrið hjá sumum hópum og laun þeirra tekjulægstu hafi hækkað meira en samningar segi til um.

„Það er líka rétt að um helmingur okkar félagsmanna er bara að fá almennar hækkanir. Eins og á þessu ári upp á 3,25 prósent og verðbólgan er 4 prósent. Þannig að um helmingur félagsmanna Alþýðusambandsins eru í kaupmáttarsamdrætti."

Hvort átök verði á vinnumarkaði í haust ráðist mikið af því hvaða efnajagsstefnu næsta ríkisstjórn ætli að fylgja, bæði hvað varðar peningamálastefnuna og gjalmiðilsmálin, sem hingað til hafi komið illa við launafólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×